nott
9.ágúst 2005

Þvílík nótt!
Atburðir síðustu daga hafa sett mér og reyndar okkur hjónum nýja stefnu í lífinu eða kannski bara skýrt hana enn frekar.

Hugur okkar hefur alltaf leitað til þess að hjálpa öðrum en að það yrði á þeim vettvangi eða hæðum sem nú eru framundan óraði ekki að okkur.

Hvað er það þá sem hefur gerst sem olli því að nóttin varð svefnlítil alla vega eftir óttubil. (3 að nóttu).
Þetta hófst á laugardagskvöld en þá var ég að vinna með Joro, Ella og Björk að heilun og að spjalla. Sá þá Björk nýja orkutengingu við mig sem hún hafði ekki séð áður og var það karl orka á mjög hárri tíðni sem tengdist við mig á 13.víddinni en náði frá Uppsprettunni. Fann ég sterklega fyrir henni og kærleikanum sem flæddi um orku líkama mína.

Snemma á sunnudagsmorgun eða kl 6:30 hringdi síminn og var vinur okkar og kærleiks kennari, John Armitage/ Hari Baba á hinum endanum. Erindið var tvíþætt en aðeins fyrri hlutinn kom fram í samtalinu þennan morgun. Hann sagðist svo myndi hringja síðar um daginn. Það var samt ekki fyrr en um nón eða hádegi á mánudag þe í gær sem hann hringdi og kvaðst hann vera með tillögu. Hann greindi því næst frá því að hann hygðist hætta sem formaður í Shamballa foundation sem er sjóður sem stofnaður var að hans tilstuðlan og hugmynd til að fjármagna kennslu á Shamballa og heilunarsetrum í löndum 3. heimsins og þar sem fólk hefur minna fjármagn og því ekki efni á að fá til sín shamballa kennara og borga fullt gjald.

Hann spurði mig því næst hvort ég vildi verða næsti formaður sjóðsins.
Til stæði jafnframt að fjölga í stjórninni eða undirnefnd hennar og fá þannig inn fólk frá fleiri löndum en nú er.

Fyrsta hugsun mín var hversu mikil viðurkenning það væri á því sem ég hefði verið að gera síðustu ár að til mín skuli vera leitað um þetta virðingarstarf. Ég fann fyrir auðmýkt gagnvart Skaparanum og fulltrúa hans sem var á hinum enda símans.
Gæti ég valdið slíku starfi, hvert yrði raunverulegt hlutverk mitt og hversu tímafrekt yrði það. Hið síðasta var ekki síst stór spurning þar sem tímatafla mín er nú þegar all þétt og ég hef verið að reyna að finna meiri tíma fyrir fjölskylduna inn í henni.

Ég bað því um frest til að hugsa málið.

Mitt næsta skref var að sjálfsögðu að hafa samband við Ella, mína stoð og styttu í lífi mínu og starfi.
Hann var ekki lengi að svara því til að hann styddi mig heilshugar. Sama var upp á teningnum þegar ég hafði samband við mína bestu vini og kærleiksfélaga úr shamballa fjölskyldunni.

Eftir nokkrar vangaveltur í viðbót eftir að heim úr vinnu var komið í gærkvöld hringdi ég svo í Baba og tjáði honum að ég þiggði starfið.

Fyrir svefninn bað ég svo Skaparann, Germain, Vywamus og mitt Guðsjálf að hjálpa mér svo að vegur Shamballa sjóðsins og vegur kærleika Skaparans yrði greiður og sem flestir jarðarbúar hvar sem þeir búa á jarðarkringlunni verði aðnjótandi hans og upplifi frelsið og ljósið sem aðeins hinn óskilyrti kærleikur getur fært manninum.

Nóttin varð eins og áður sagði ekki svefnsöm og vaknaði ég klukkan 3 eða þá byrjuðu draumfarir miklar þar sem skutust inn fjölmargar hugmyndir um hvernig vinna mætti að því að fá fjármagn sem þarf til að sjóðurinn megi vaxa og standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar og sem tilgangur með stofnun hans var.

Með kærri þökk og auðmýkt

Lilja Petra


Heim Shamballasjóðurinn   Shamballa námskeið Hrifkjarnar   Heilsustofa   Cranio    Nudd

Ýmsar greinar
Nótt
Free Web Hosting