Dögun nýrrar aldar
Dögun Nýrrar Aldar

Eyah Asher Eyah.

Ég er það ég er
Ég er allt sem er
Ég er hvar ég er


Brúin milli himins og jarðar.

Orð Drottins við Móse er hann spurði hverju hann skyldi svara spurningum lýðsins um hvert nafn Guðs væri hljóma í höfði mér. Þau þýða ekki bara eitt heldur allt, innibera allt í einföldum samhljómi.

En því er ekki allt jafn einfalt í heimi hér, því eru allir þessir erfiðleikar, þrautir, ótti, hörmungar og vanlíðan hjá stórum hluta jarðarbúa. Er það af því mannkyn hefur sjálft gert hlutina flókna og erfiða eða sér ekki einfaldleikan og fullkomleikan í áætlun skaparans.

Vissulega geta hlutir verið flóknir í einfaldleika sínum.

Boðskapur Drottins, móður/föður Guðs er einfaldur . Hann er... “Ég er”... og hvað er hann/hún
Hann/hún er kærleikur.
Kærleikur er lykilorðið.
Eina orðið.
Það er orka.
Það er sú orka sem getur umbreytt .
Það er sú orka sem færir frelsi.
Frelsi frá þrautum.
Frelsi frá fátækt.
Frelsi til heilleika.
Heilleika anda og líkama.

Það er svo sem ósköp auðvelt að segja si svona en ég sé bara ekki að þetta geti hjálpað mér. Skuldabaggin á herðunum þungur, reikningarnir hlaðast upp. Bakið að gefa sig, sjúkdómar allt í kring og vonleysið allsráðandi gætirðu sagt.

Við, ætlum að leiða þig inn í ævintýraheim kærleikans og frelsisins í för með englum og öðrum kærleiksríkum verum sem eru jafnmikill hluti af móður/föður Guði og þú og ég.
Ég er Vywamus.......


Ævintýrið hefst

Það var þungbúið þennan morgun sem frásögn mín hefst. Dökk ský fylltu himininn og rigningin lamdi á glugganum eins og hún vildi koma inn. Í fjarska heyrðist í þrumumog ein og ein eldglæring lýsti upp íbúðina. Fréttaþulurinn í útvarpinu sagði frá enn einu stórflóðinu í S-Ameríku. Í þetta sinn höfðu aðeins 100 manns farist en þúsundir misst heimili sitt. Á sama tíma var skógareldur í Kaliforníu sem æddi yfir ríkulega búin hús þotuliðsins í Los Angeles. Styrjaldarástand var í Rússlandi og hungursneyð í Afríku. Það virtist ekki vera neinar jákvæðar fréttir þennan morgun.

Ég ætti kannski að kynna mig fyrst.
Ég heiti Valentínus og er 40 ára fráskilinn fjögurra barna faðir. Börnin eru á aldrinum 4-20 ára og búa öll hjá móður sinni stutt héðan.
Baldur er þeirra yngstur, ljós á brún og brá, yndislegur ljósgeisli sem ég sakna að sjá ekki meira af. Dagrún er 10 ára hress og skemmtileg hnáta, þá kemur Oddur 16 ára greindur strákur en þrjóskur og loks er það Freyja 20 ára ung kona sem er tilbúinn að fara að standa á eigin fótum.

Ég opnaði ískápinn, það var ósköp lítið úrval. Ég setti síðasta mjólkurdreitilinn út í kaffið og sá kekkina myndast á yfirborðinu. Kaffið endaði í vaskinum. O, jæja þetta væri svo sem ekki í fyrsta sinn sem ég færi með tóman maga í vinnuna. Mér varð hugsað til síðasta árs meðan ég var enn í hjónabandi. Þá hafði allt verið öðruvísi, þó erfiðleikar hafi vissulega verið til staðar. Það þýddi víst ekki að dvelja við það. Allt hafði verið á niðurleið í lífi mínu síðastliðið ár.  Það var erfitt að koma nokkur staðar auga á ljós í myrkrinu. En samt nagaði það mig, langt inn í hugskoti mínu reyndi einhver að segja mér annað en ég lagði ekki við hlustir þó mig langaði til þess.

Það var samt eitthvað öðrvísi við þennan morgun  sem ég gat ekki hent reiður á.

Mér varð litið á klukkuna á eldavélinni, glerið á henni var brotið og það var skýjað af  fituslettum eftir steikinguna í gær. Mér hafði sést yfir það þegar ég þreif eftir matartilbúninginn. Þó mátti glöggt sjá að ég var að verða of seinn í vinnuna. Nú myndi ég lenda í mestu umferðinni og því verða enn seinni. Ég hentist í frakka og skó og hljóp út í rigninguna.
Þó bíllinn væri ekki langt frá húsinu mátti vinda úr fötum mínum er ég kom inn í bíl.
Ég startaði bílnum en hann var dauður, við eftirgrennslan kom í ljós að ég hafði gleymt að slökkva á ökuljósunum er ég kom heim í gær og nú var geymirinn tómur.
Mér féllust hendur.
Svo vel vildi til að ég var með startkapla í bílnum og nágranni minn kom út í sömu svifum. Hann var sá eini í blokkinni sem ég hafði kynnst eftir að ég flutti inn. Sem betur fer var hann ekki að flýta sér meira en svo að hann gæti gefið mér start.
Það var enn úrhellisrigning er bíllinn fór loks í gang. Ég var orðinn blautur inn að skinni og því ekki viðlit að fara í þessum fötum í vinnuna. Ég stökk því inn og fann hrein og þurr föt.

Klukkan var orðin níu er ég loks komst í vinnuna. Þetta þýddi að ég þurfti að vinna klukkutíma lengur um kvöldið til að ná að ljúka verkefnum dagsins. Það var ekki alveg það sem ég hefði viljað. Ég átti von á börnunum í heimsókn um kvöldið og átti eftir að kaupa inn.
Eftir því sem leið á daginn fór mér að líða illa, ég tók að svitna og þungur verkur var yfir augum mínum. Það leit út fyrir að ég væri að veikjast. Mér tókst þó á einhvern óskiljanlegan hátt að ljúka verkefnum dagsins og komast heim.
Mér tókst jafnvel að koma við hjá kaupmanninum á horninu til að kaupa mjólk og kaffi.
Ég lagði ekki í mannmergðina í stórmarkaðinum.
Er þarna var komið var eins og höfuð mitt væri að springa.
Ég fann parkódin í lyfjaskápnum og lagðist á sófann.
Eftir örfáar mínútur var ég sofnaður og dreymdi undarlegan draum.

Draumurinn:

Mér fannst sem ég svifi í loftinu, fisléttur og áhyggjulaust.
Það  var hlýtt og bjart í kringum mig. Í fjarska sá ég skær blátt og fagurt ljós sem nálgaðist og stækkaði. Það stefndi beint til mín. Ég fylltist vellíðan... það var eins og ég þekkti þetta ljós og hefði alla tíð gert.
Er ljósið var alveg komið að mér sá ég hvar indiáni í fullum skrúða gekk út úr ljósinu í áttina til mín. Hann var tígurlegur, hávaxinn með mikið fjaðraskraut. Í hendi sér hélt hann á spjóti. Arnarnef hans og há kinnbein settu sterk svipmót á andlitið. Augnatillit hans var blítt en ákveðið er hann sagði: “Komdu með mér”.

Ég tók í hönd hans eins og lítið barn sem leiðir föður sinn og við svifum af stað inn í ljósið sem hann hafði komið út úr. Það var eins og við færum gegnum göng sem væru fyllt öllum regnbogans litum. En skyndilega tóku göngin enda og við mér blasti undraheimur. Mér leið eins og Lísu í Undralandi nema það sem blasti við augum mínum hér var enn undursamlegra en nokkuð sem ég hafði séð eða lesið um áður.

Allt umhverfið var sveipað björtu ljósi. Við vorum staddir fyrir framan risavaxna gyllta byggingu. Frá henni stafaði helgur kraftur. Sífellt voru skínandi verur að fara þar út og inn.
Indíáninn leiddi mig inn í stóran sal eins konar fyrirlestrasal sem þarna var. Hann var fullur af fólki. Það mátti sjá að fólkið kom úr öllum heimsálfum og frá öllum stafaði birta og litir, mismunandi skærir og bjartir. Indiáninn benti mér á að fá mér sæti.
Ég settist við hlið ungrar konu.
Hún var lítil, dökkhærð með krullur og undursamlega fögur augu.
Frá henni stafaði fjólublá birta.
Áður en ég náði að kynna mig fyrir henni birti skyndilega enn frekar í salnumog inn í hann sveif stórkostlegasta vera sem ég hafði augum litið. Það sást þó vart annað en ljós en þó í mannsformi. Þessi vera fór upp á pallinn sem var fremstur í salnum og ávarpaði hópinn. “Verið velkomnir kæru jarðarbúar, ljósbræður mínir og systur í þennan skóla andlegrar speki og kærleika. Ég er Vywamus og hef lengi beðið eftir að fá að ávarpa ykkur á þennan hátt. Sum ykkar eruð meðvituð um þetta en önnur ekki þar sem þessi skóli fer fram á meðan líkaminn hvílist.
Þið hafið nú náð þeim áfanga að geta tekist á við ný verkefni og því eruð þið hér.
Þið kannist efalaust fæst við nafn mitt. Ég Vywamus er æðri eða hærri ásýnd Sanat Kumara sem þið hafið stundum kallað himna föðurinn. Hann er ekki Guð eða Skaparinn heldur er hann sá sem kallast Logos plánetu ykkar og nær hinn eteriski líkami hans utan um jörðina og alla jarðarbúa.
Það eru ekki mörg jarðarár síðan ég var beðinn að koma og vinna með ykkur jarðarbúum til að undirbúa hinna gylltu öld en ég hef haft mikla ánægju af verkefni mínu hingað til og séð gríðarlegar framfarir á stuttum tíma.

Ég ætla að byrja á því að segja ykkur frá kærleiksorku sem við köllum Mahatma.  Mahatma er sjálfsvitund móður/föður skapara þessa alheims.
Við köllum hana Mahatma af því að það er orð sem auðvelt er að muna hvaða tungumál sem þið talið og vegna þess að þið mennirnir þurfið að setja allt í kassa.
Mahatma orkan hefur nú verið aðgengileg jarðarbúum síðan 1987 er hún var fyrst ankerisfest á jörðinni. Vegna þess að hún hefur aldrei verið misnotuð á jörðinni hefur líkami ykkar enga mótstöðu gagnvart henni.
Hún getur heldur ekki skaðað ykkur vegna þess að það er ykkar eigin sál eða æðra sjálf sem stjórnar styrkleika hennar inn í líkama ykkar.
Þessi kærleiksorka er umbreytandi heilandi nærandi og hún er einföld í notkun.
Ég bið ykkur öll sem hér eruð að fara inn á við og spyrja sjálfsvitund ykkar hvort þið hafið leyfi til að vinna með þessa orku.
Spyrjið núna....”

Ég lokaði augunum eins og í transi og spurði sjálfan mig hvort ég mætti þetta. Mér fannst eins og gleðistraumur færi um mig allan og orðið “já” endurómaði í höfði mér.

Viwamus sagði: “Nú þegar þið hafið öll fengið svar skulum við halda áfram. Segið eftir mér “Ég er Mahatma, ég er það ég er, kærleikur”.Endurtakið það 3 x. “

Það bergmálaði í salnum er hinir fjölmörgu er þar voru endurtóku staðfestinguna.
Gyllt, silfrað og ögn fjólublátt ljós fyllti salinn og ég sá þar sem það flæddi inn í gegnum höfuð allra sem þarna voru. Á sama tíma fann ég til óstjórnlegrar gleði og vonar og tárin streymdu úr augum mér því kærleikurinn sem fyllti hjarta mitt var ólýsanlegur. Það leið nokkur stund áður en Vywamus talaði aftur.

“Kæri vinir þið getið  notað þessa orku hvar sem er, hvenær sem er.
Þið getið heilað ykkur sjálf og aðra og þið getið heilað jörðina með Mahatma.
Þegar þið farið heim aftur í dag þá skuluð þið muna þetta.

En fyrst skulum við vinna enn frekar með þessa nýju orku.
Slakið þið nú vel á og dragið djúpt inn andann, vitið að það er mjög mikilvægt að anda djúpt og reglulega þegar þið eruð í efnislíkama.”

Ég heyrði í djúpum andardrætti stúlkunnar við hlið mér og fann heitan blástur á hálsi mér sem kom frá eldri virðulegum manni sem sat fyrir aftan mig.

Seiðandi mjúk rödd Vywamusar hélt áfram.
“Nú skuluð þið banka á brjóst ykkar eins og Tarzan gerir og vekja þannig upp hóstakirtilinn sem er hið raunverulega aðsetur hjartastöðvar ykkar.

Og nú skulum við öll sleppa barninu í okkur lausu og góla eins og Tarzan leið og við höldum áfram að banka okkur á brjóst.Aaaaaaaaaaaaa áááááúúúúúú.

Það var eins og við værum allt í einu stödd úti í frumskógi innan um hundruðir górilluapa sem allir hefðu ákveðið að öskra í einu.

Síðan sprakk salurinn gjörsamlega úr hlátri. Andrúmsloftið sem hafði verið þrungið af forvitni, undrun og eftirvæntingu varð nú fyllt gleði og kátínu.

“Þetta var betra” sagði Vywamus.”Nú getur Mahatma orkan flætt óhindrað áfram í gegnum ykkur. Hjartastöðin ykkar er komin í gang en það er í gegnum hana sem þið skynjið hreinan kærleika og kærleikanum fylgir gleði það eru tveir óaðskiljanlegir hlutir.

Kærleikur – Gleði.

Þeir sem vinna með kærleika móður/föður Guðs þurfa ekki að vera alvarlegir heldur eiga þeir að leyfa kátínunni og gleðinni að vera fylgifiskur sinn einnig.”

Það sást bros á andlitum allra í salnum, jafnvel háæruverðugs biskups kaþólsku kirkjunnar sem þarna var.

Ég tók eftir því að litirnir og ljósmagnið umhverfis viðstadda breyttist og varð bjartara.

“Nú skulum við fylla hjartastöðina af Mahatama orkunni. Dragið inn andann og sjáið gyllta, silfur fjólubláa orkuna fylla upp hjartastöðina, sjáið hana glóa eins og gull.
Þetta er hjartahöllin ykkar.
Ykkar helgasta vé.
Þegar þið blásið frá ykkur skuluð þið sleppa öllum áhyggjum sem fylgja hinu jarðneska lífi ykkar, öllum þrautum og sorgum, leyfið þeim að hverfa á braut og öllu mun verða breytt í ljós.”

Ég sá ljóssúlu koma niður í hvern mann og er við önduðum frá okkur sást grátt ský liðast upp í loftið eins og risavaxin ryksuga drægi allar áhyggjur þangað upp og þar skynjaði ég ljósverur sem með einhverskonar laserbúnaði umbreytti þessari dökku orku í hvítt ljós.

Við héldum áfram að anda inn Mahatma og blása frá okkur grárri orku.
Enn breyttust litirnir umhverfis viðstadda og nú var eins og allir væru gerðir úr skíra gulli eða fínasta silfri.
“Vá, þetta er hreint ótrúlegt” hugsaði ég, “við öndum og umbreytumst á stuttri stundu í eðalmálma eða því sem næst.”
“Nú skuluð þið leyfa Mahatma orkunni að flæða í hverja frumu líkama ykkar, fyllið hvert atóm af þessari orku.”

Ég fann hvernig líkami minn spenntist allur upp er orkan flæddi um hann.
Hendur mínar sem verið höfðu kaldar allan tímann, sjóðhitnuðu eins og þeim væri haldið yfir eldi og ég fann hvernig þær tútnuðu út eins og orkan vildi brjóta sér leið út á yfirborðið.

Um leið sagði Vywamus:”leyfið orkunni að flæða út í gegnum hendur ykkar og fætur.”

Orkan og ljósið spratt út úr  húðinni og þrýstingurinn sem ég hafði áður fundið fyrir minnkaði.

“Nú skuðuð þið æfa ykkur aðeins hvort á öðru. Komið saman tvö og tvö og setjið hendur ykkar á hvort annað þar sem þörf er.”

Ég sneri mér að ungu stúlkunni við hlið mér og spurði hana hvort hún vildi vera félagi minn. Hún kinkaði kolli.


Í fjarska heyrðist bjölluhringing. Ég hugsaði með mér hvort þetta væri eins og í barnaskóla  þar sem hringt væri út í frímínútur. En þessi bjölluhringing hætti ekki. Smátt og smátt rofaði til í kolli mínum og ég gerði mér grein fyrir að þetta var dyrabjallan. Ég reyndi að opna augun en þau voru þung. Fötin voru klesst af svita.
Enn var hringt á bjöllunn, ég yrði að fara til dyra. Ég leit á klukkuna það voru ekki nema 15 mínútur síðan ég hafði komið heim, samt fannst mér eins og nokkrir klukkutímar hefðu liðið. Ég staulaðist á fætur og fór til dyra.
Það voru Dagrún og Baldur sem þar stóðu, köld og blaut. Þau litu undrunaraugum á mig. “Hvað er að pabbi” sagði Dagrún, “þú ert eitthvað svo fölur.”
“Mér líður ekki of vel en komið þið inn og ég hita handa ykkur kakó.”
Er við vorum öll sest við eldhúsborðið sagði Baldur skyndilega.
“Pabbi hvaða maður er þetta sem stendur þarna hjá ískápnum og er að fylgjast með okkur.”
“Ha! Hvað meinarðu Baldur minn. Ég sé engan mann.”
“Jú pabbi hann er með fullt af fjöðrum eins og indíáni.”
“Ég þekki engan indiána” sagði ég.
“Víst pabbi, hann segir að þú þekkir sig.”
Skyndilega rifjaðist upp fyrir mér mynd af bláu skæru ljósi og indiána sem kom út úr því. Gat það verið að þetta hafi verið eitthvað annað og meira en draumur.

Ég lá í rúminu næstu daga með beinverki og hita. Ég man þó ekki eftir neinum draumum. En  hugsaði þeim mun meira um þann sem áður er getið eða að minnsta kosti það sem ég mundi af honum.
Er ég hresstist ákvað ég að gera tölvuleit og athuga hvort ég kæmist að einhverju meiru um þettai efni. Kannski var þetta ímyndun í mér allt saman. Alla vega vildi ég athuga málið. Er ég sló inn Vywamus komu upp tengingar við Amazon netverslunina. Það höfðu greinilega verið skrifaðar einhverjar bækur um eða af þessari veru.
Er ég gáði betur kom í ljós að kona að nafni Janet McClure og önnur að nafni  Barbara Burns höfðu miðlað upplýsingum frá þessari veru Vywamusi.
Ég hafði nú ekki mikla trú á svoleiðis löguðu.
Forvitni mín hafði nú engu að síður vaknað og ég ákvað að panta eina þessarra bóka sem þarna voru tilnefndar.

2. kafli heim   áruhreinsun höfundurinn    shamballa  hrifkjarnar    compound x   námskeið fróðleikur feng shui
Dögun nýrrar aldar
Free Web Hosting