Lög um græðara
Lög um græðara
Lög
um græðara.

____________________


1. gr.
Markmið og gildissvið.
Markmið laga þessara er að stuðla að gæðum heilsutengdrar þjónustu græðara og öryggi þeirra sem leita eftir slíkri þjónustu eða nýta sér hana. Markmiði þessu skal m.a. náð með því að koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara. Lögin taka til skráðra græðara og eftir því sem við á annarra græðara, þótt óskráðir séu.

2. gr.
Skilgreiningar.
Með orðinu græðari í lögum þessum er átt við þá sem veita heilsutengda þjónustu utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu. Með heilsutengdri þjónustu græðara er átt við þjónustu sem einkum tíðkast utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu og byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Slík þjónusta felur í sér meðferð með það að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun.

3. gr.
Skráningarkerfi.
Komið skal á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara. Skráningarkerfið skal vera í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Bandalaginu er heimilt að innheimta skráningargjald sem standa skal undir kostnaði við skráningu hvers græðara og rekstri og viðhaldi skráningarkerfisins. Bandalagið ákveður fjárhæð skráningargjalds og skal hún staðfest af ráðherra. Bandalagið skal tryggja að almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um það hvaða græðarar eru skráðir á hverjum tíma og hver sé starfsgrein þeirra. Skráðum græðara er skylt að hafa skráningarskírteini sitt á áberandi stað á starfsstöð sinni þannig að það sé örugglega sýnilegt þeim sem sækja sér þjónustu viðkomandi græðara. Heimilt er að skrá græðara sem eru félagar í fagfélagi sem á aðild að skráningarkerfinu. Óski græðari sem ekki á aðild að fagfélagi eftir skráningu er skráning hans heimil að því tilskildu að hann uppfylli menntunarkröfur þess fagfélags sem hann ella ætti að tilheyra og önnur skilyrði skráningar og sæti eftirliti Bandalags íslenskra græðara. Uppfylli skráður græðari ekki lengur skilyrði skráningar skal Bandalag íslenskra græðara taka hann af skrá. Ráðherra ákveður að fenginni umsögn landlæknis og Bandalags íslenskra græðara hvort fagfélag fær aðild að frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara. Ráðherra skal með reglugerð kveða á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að eiga aðild að skráningarkerfinu. Þar skal einnig kveðið á um fyrirkomulag skráningar, þær upplýsingar sem fram þurfa að koma um starfsgrein græðara, aðgang almennings að skrá yfir græðara, vistun skráningarkerfisins, eftirlit með viðhaldi þess og þær kröfur sem græðarar þurfa að uppfylla til að fá skráningu. Nú uppfyllir fagfélag ekki lengur þær kröfur sem reglugerð kveður á um og getur ráðherra þá ógilt aðild þess að skráningarkerfinu.

4. gr.
Ábyrgðartrygging.
Græðari ber bótaábyrgð á störfum sínum eftir almennum reglum. Skráðum græðurum er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna tjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þeirra. Í stað vátryggingar skal græðara þó heimilt að leggja fram ábyrgð sem veitt er af viðskiptabanka eða sparisjóði, eða annars konar tryggingu sem veitir sambærilega vernd að mati ráðherra. Ráðherra setur reglugerð um lágmark vátryggingarfjárhæðar og framkvæmd vátryggingarskyldunnar. Hann skal hafa samráð við Bandalag íslenskra græðara og landlækni um ákvörðun vátryggingarfjárhæðarinnar.

5. gr.
Trúnaðar- og þagnarskylda.
Græðurum er skylt að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu nema lög bjóði annað. Þagnarskylda helst þótt græðari láti af störfum og einnig þótt sá sem notið hefur þjónustu viðkomandi græðara sé fallinn frá. Um vitnaskyldu græðara gilda ákvæði læknalaga.

6. gr.
Skráning upplýsinga um heilsutengda þjónustu græðara.
Að höfðu samráði við landlækni og Bandalag íslenskra græðara setur ráðherra með reglugerð skilyrði um skráningu og meðferð upplýsinga vegna heilsutengdrar þjónustu græðara sem veitt er utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu. Að öðru leyti fer um meðferð upplýsinga, þar á meðal öryggi þeirra, samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglum settum með stoð í þeim.

7. gr.
Takmarkanir á heilsutengdri þjónustu græðara.
Meðferð vegna alvarlegra sjúkdóma skal einungis veitt af löggiltum heilbrigðisstarfsmönnum. Þetta gildir þó ekki ef sjúklingur óskar eftir þjónustu græðara eftir samráð við lækni. Græðari skal í slíkum tilvikum fullvissa sig um að samráð hafi átt sér stað. Græðurum er óheimilt að gera aðgerðir eða veita meðferð sem fylgir alvarleg áhætta fyrir heilsu sjúklings. Sama máli gegnir um meðferð sjúkdóma sem falla undir ákvæði sóttvarnalaga um smitsjúkdóma og hafa í för með sér hættu fyrir almenning. Græðurum er óheimilt að ráðleggja fólki að hætta lyfjameðferð eða annarri meðferð sem það hefur hafið hjá löggiltu heilbrigðisstarfsfólki. Verði græðari þess var að skjólstæðingur sé með vandamál sem fellur utan starfssviðs græðara eða að meðferðin hafi ekki borið tilætlaðan árangur ber honum að vísa skjólstæðingi til læknis. Heilbrigðisstofnun er heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara þar sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar og ber þá að skrá það í sjúkraskrá sjúklings. Ráðherra getur með reglugerð, að höfðu samráði við Bandalag íslenskra græðara og landlækni, kveðið nánar á um þá sjúkdóma, aðgerðir og meðferð sem getið er í 1. og 2. mgr.

8. gr.
Starfsheiti og kynning.
Einungis sá sem er skráður græðari skv. 3. gr. hefur rétt til þess að nota heitið skráður í tengslum við starfsgrein sína. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem takmarkar kynningar og auglýsingar á starfsemi þeirra sem stunda heilsutengda þjónustu með hliðsjón af þeim ákvæðum laga sem gilda um heilbrigðisstéttir.

9. gr.
Viðurlög.
Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, framin af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Um hlutdeild fer eftir ákvæðum 22. gr. almennra hegningarlaga. Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála.

10. gr.
Endurskoðun.
Lög þessi skal endurskoða eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra.

11. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

_________________________

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2005.

Heilsustofa Lilju og Ella Shamballasetrið
Free Web Hosting