Spegill99-shamballa
Nú þegar ár er liðið frá ferð okkar hjóna til Mt Shasta þar sem við tókum þátt í umbreytandi 9 daga námskeiði með 27 öðrum yndislegum verum er tímabært að líta til baka og skoða atburði liðins árs.

Það er í raun ótrúlegt að aðeins eitt ár sé liðið svo margt hefur gerst og breyst. Við höfum kynnst mörgu góðu fólki sem hefur áhuga á að breyta lífi sínu og heila sjálfa sig og móður jörð. Við höfum lært margt bæði á námskeiðum og af nemendum okkar.  Tvívegis höfum við orðið þeirrar ánægju njótandi að vera gestgjafar fyrir vin okkar og ljósbróður John Armitage/Hari Das Melchizedek en hann hefur heillast svo af landi okkar og þjóð að fyrirhugaðar eru tvær ferðir hingað til lands á næsta ári til að halda námskeið og njóta orku landsins.  Einnig hafa komið hingað Gary Smith hinn kennari okkar frá Shasta og Kathleen Murrey kona Johns.

En hér er nokkuð af því markverðasta sem gerst hefur.

Undirbúningur.

Fyrstu mánuðirnir eftir námskeiðið fóru í að þýða kennsluefni og aðlagast þeirri nýju orku sem lék um efnis og andlega líkama okkar.  Síðan tóku við kennsla á  merkaba hugleiðslu tækninni og síðar einnig í Shamballa heilunartækninni.  Hvert námskeið hefur fært okkur nýja innsýn og opnað enn frekar fyrir hina háu orku sem unnið er með.

Námskeið með Hari Dasi og Gary

Um páskana komu svo Hari Das og Gary til landsins.  Við sóttum þá á flugvöllinn í miklu frosti en fögru veðri og tókum útsýnisleiðina heim í gegnum Krýsuvík. Sú ferð varð mun lengri en til stóð þar sem bíll okkar festist í snjó er örstutt var eftir til Krýsuvíkur og var það reyndar lán í óláni þar sem við hjónin gátum gengið yfir að skólanum um 3 km leið til að nálgast aðstoð að öðrum kosti hefðum við sennilega þurft að hýrast þarna næturlangt.  Á meðan upplifðu vinir okkar kalda fegurð hins stórbrotna landslags Reykjaness. Orku þeirra hefur örugglega verið þörf á þessum stað þar sem mikill hiti ólgar undir fótum og jarðskorpan er á sífelldri hreyfingu og því séð til þess að við stöldruðum lengi við.

Námskeiðið gekk vel en margt gerðist á innri sviðum sem aðeins kennararnir vissu um og er það efni í sérstaka grein.  Þó getum við sagt að mikil hreinsun fór fram á orku  landsins sem hefur haldið áfram allt síðan.
Hari Das fór með allan hópinn í merkaba ferð til Urula í Ástralíu þar sem frumbyggjar tóku á móti okkur og síðar lá leiðin til neðanjarðarborgar í Hofsjökli þar sem “ísfólkið” býr.  Meðferðis frá Urula var gríðarstór kristall sem settur var niður í Hofsjökli til að aðstoða við að opna upp orkustöðina þar.

Við fórum með gestina í styttri ferðir, meðal annars til Þingvalla . Er vatnið birtist sjónum okkar spurði Lilja Das hvort hann skynjaði nokkuð orkustöðina sem væri þarna.  Þess má geta að Hari Das er gæslumaður orkunets jarðarinnar og sér mjög gjörla orkulínur og orkustöðvar.  Hann sagði að þarna væri um 6 odda stjörnu að ræða með miðjuna í Sandey.  Við gengum upp Almanngjá  og á Lögbergi var staldrað við og rætt um staðinn.  Í ljós kom að þar sem við stóðum á palli Lögbergs var einmitt orkustöð og því mjög líklegt að forfeður okkar hafi valið einmitt þennan stað til þinghalds síns.

Farið var með kappana í steinaleit með þeim árangri að um mitt sumar fóru tæplega 300 kg af íslensku grjóti með skipi til Skotlands og prýða þeir steinar nú heimilisgarð Hari Dasar.
Einnig lá leið okkar inn í Botnsdal þar sem Hari Das blés í Didgeridoo sitt til að hreinsa orkulínurnar sem þar eru en orkustöð er upp á Botnssúlum og liggja orkulínur niður dalinn.

Annað námskeið.

Ekki voru liðnar nema 2-3 vikur eftir að Das og Gary fóru til Evrópu er fyrirspurn kom frá Das hvort ekki væri hægt að halda aftur námskeið á Íslandi þar sem hann hefði fengið leiðbeiningar um að virkja Reykjavík sem borg ljóssins og einnig að virkja aðalorkustöð landsins sem er í Hofsjökli. Ákveðið var að Hari Das og Kathleen Murrey kona hans kæmu í júní og héldu kristalla námskeið.

Í millitíðinni lá leið okkar hjóna til Noregs þar sem við kenndum bæði merkaba og heilunar tækni.  Þar unnum við fyrst að jarðarhreinsun og virkjuðum okkar fyrstu mandölu en hún opnar beina tengingu frá Uppsprettu þessa alheims til hjarta móður jarðar og  leyfir þannig orku Drottins beinan aðgang að jörðinni okkar. Þar sem mandölur eru virkjaðar á orkuneti jarðarinnar  eykst ljósmagnið og kærleiksmagnið á netinu og hjálpar þannig öllum íbúum plánetunnar.

Reykjavík borg ljóssins.


Fámennt en góðmennt var á kristallanámskeiðinu en Das og Kathleen létu það ekki aftra sér frá því að koma hingað. Höfðu þau með sér gott safn kristalla og eðalsteina til að nota við kennsluna. Einnig höfðu þau í fórum sínum 4 kristal “skalla” eða hauskúpur og var sú stærsta á við mannshöfuð. Þetta voru Sheendra, Mahasamatman, Georg og Vera en í hverjum kristal er vitund sem þau hjón vinna með. Námskeiðinu lauk með því að gríðarstór orkustöð í hjarta miðborgar Reykjavíkur var hreinsuð og virkjuð og virðist það þegar hafa haft góð áhrif á mannlíf í borginni. Nóttina fyrir virkjunina birtust Hari Dasi verur sem greinilega voru ekki frá ljósinu og sögðu honum að hætta við allt saman annars yrði þeim að mæta.  Hari Das hélt þeim föngnum í kærleikssendingu meðan þær reyndu að koma inn ótta hjá honum án árangurs. Að endingu gengu þær hins vegar inn í ljósið.  Þetta átti þó eftir að draga smá dilk á eftir sér en kom þó ekki í veg fyrir upphafleg ætlunarverk.

Ekki var unnt að fara upp á Hofsjökul í þetta sinn en hver veit hvað gerist síðar.

Virkjað á Keflavíkur flugvelli


Í júlímánuði kom hingað til lands ung finsk stúlka sem unnið hefur að jarðarheilun og saman virkjuðum við mandölu innan varnargirðingarinnar á Keflavíkurflugvelli.  Mandalan var sett upp á orkulínu sem liggur beint í gegnum stjórnstöð hersins á vellinum.  Ekki virtust allir vera sáttir við þessa athöfn okkar því um kvöldið urðum við vör við óboðna gesti í orkusviði okkar en með góðri aðstoð erkiengilsins Mikaels og liðssveita ljóssins var það hreinsað á örskots stundu.

Ferð á vestfirði og jarðarheilun


Í ágúst lá leið okkar til vestfjarða og var það í fyrsta sinn sem við fórum um Ísafjarðardjúp.  Við vissum áður en haldið var af stað að jarðarheilunar verkefni biðu okkar þar en umfang þeirra var okkur algjörlega hulið.  Við tókum því með okkar kristalla okkar bæði til að mynda mandölu og eins jarðarheilara okkar sem samanstanda af berg kristal kúlu með túrmalíni og stórum tví odda bergkristal auk elestial kristals. Smátt og smátt kom í ljós hvað fyrir okkur lá. Við hófumst handa við að virkja mandölur  í Kaldalóni og eins á Arngerðareyri.  Síðan lá leið okkar til Hnífsdals þar sem gistum nokkrar nætur. 10.ágúst kom saman hópur vestfirðinga og fórum við saman í mahatma hugleiðslu og síðan hóp ferðalag til Giza pýramídans þar sem okkur voru afhentir tveir eteriskir kristallar, þaðan lá leiðin til Telos þar sem okkur var afhent steintafla með boskap Drottins og loks lá leið okkar til neðanjarðar borgarinnar undir Hofsjökli sem við köllum Ísborgina. Þar skyldum við annan kristalinn og steintöfluna eftir  en hlutverk þeirra er að efla enn frekar orkustöðina í jöklinum. Við fengum síðan leiðbeiningar um að hinn eteríski kristallinn skyldi settur niður með mandölu í Hesteyri en þangað var ferðinni heitið daginn eftir á degi deildar myrkva á sólu.
Við lukum verkefni okkar á Hesteyri en þó ekki án óvæntra atburða.  Við ákváðum að baða kristallana okkar í ánni rétt neðan fossins nokkru ofan við læknabústaðinn.  Er kom að því að setja upp mandöluna vantaði elestial kristallinn, hann hafði orðið eftir í ánni.  Elli hljóp upp með ánni meðan Lilja undirbjó virkjun mandölunnar.  Í hópinn slóst ungur bandaríkjamaður sem var hér á ferðalagi og hafði áhuga á því sem við vorum að gera. Ella tókst að finna kristalinn svo hægt var að ljúka ætlunarverkinu áður en báturinn fór til baka til Ísafjarðar.  Um kvöldið var svo haldið til Bolungarvíkur en við höfðum fengið það sterklega til okkar að hreinsa þyrfti orkuna í Bolafjalli. Þetta var einnig í tengslum við áður nefnda virkjun og hreinsun á orkulínunum á Keflavíkur flugvelli.
Í Bolungarvík hittum við þrjá heimamenn sem aðstoðuðu okkar ásamt vinkonu okkar úr Hnífsdal.  Við ákváðum að vinna þar sem orkulínurnar skerast inn í kirkjugarðinum á staðnum.  Í miðjum garðinum er stór álfasteinn og komum við kristöllunum þar fyrir.  Mandöluna settum við upp allt í kringum garðinn. Við kölluðum að vanda til erkienglana, helgistjórn plánetunnar, gyllta engla og fleiri ljósverur til að aðstoða okkur við þessa hreinsun og virkjun.  Einnig báðum við díva staðarins að aðstoða.  Strax í upphafi varð Lilja vör við mótstöðu í umhverfinu, þó vissum við ekki hvað það var.  Vel gekk að hreinsa orkulínurnar og virkja mandöluna en þó virtist ekkert ganga með Bolafjall.  Við leyfðum kristöllunum að vinna sitt verk en eftir nokkra stund tókum við þá ákvörðun að hjálpa betur til.  Við tókum niður gríðarstóran gylltan stormsveip frá Uppsprettunni til að hreinsa Bolafjall.  Ekki dugði það þó til og kom í ljós að inn í fjallinu voru dökkar verur, svokallaðar eðluverur sem þar héldu til.  Þrjár þeirra vildu ekki fara inn í ljósið og vörðust hatrammlega.  Við köllluðum því til enn frekari liðsstyrk ljóssins og einbeittum okkur að því að halda kærleikanum í hjarta okkar og senda Mahatma orku á þessar verur.  Að lokum gafst ein þeirra upp, önnur var tekin upp í ljósfar og sú þriðja splundraðist vegna alls þess ljósmagns og kærleika sem hún var umvafin. Henni varð ekki við bjargað.

Mikael felur okkar annað verkefni

Um kvöldið fengum við upplýsingar frá Mikael erkiengli að okkar biði enn eitt verkefni en það yrði ekki eins erfitt og það sem við hefðum framkvæmt fyrr um kvöldið.  Við vissum að hér var um að ræða Súgandafjörð. Daginn eftir fórum við til Suðureyrar.  Á leið okkar gegnum göngin hreinsuðum við fjallið og kristallana sem þar voru svo þeir héldu aðeins í sér kærleiksorku Drottins.  Undan okkur gegnum göngin skynjuðum við ljósfar og með okkur í bílnum voru englar og ljósverur. Jafnvel ungur sonur okkar skynjaði þetta.  Er við komum út úr göngunum og fjörðurinn blasti við okkur bentum við til beggja hliða á fjöll sem við töldum að þyrfti að hreinsa.  Í ljós kom að allt um kring var fremur dökk orka.  Við ákváðum að leita fyrst að steinum áður en við tækjum til við að hreinsa orkuna þarna.  Við eyddum nokkurri stund í fjörunni við leit að fögrum steinum en þó leið okkur ekki vel.  Sérstaklega leið vinkonu okkar illa og fannst henni sem dökk slepja og viðbjóður ólgaði í maga hennar.  Við fundum að mótstaðan var mun meiri en Mikael erkiengill hafði látið í veðri vaka kvöldið áður.  Okkur var því ekki til setunnar boðið og ókum út fyrir þorpið.  Þar fundum við loks réttan stað til að virkja.  Við okkur blasti Göltur og þar skynjuðu Elli og vinkona okkar djöful líka veru með galtar andlit og skott og lét hún öllum illum látum.  Við röðuðum kristöllunum utan um bílinn og sögðum drengnum okkar að vera í bílnum á meðan.  Við byrjuðum á því að spila á tíbetskálarnar sem við höfðum nú með okkur og var þetta í eina skiptið sem við notuðum þær í ferðinni.  Síðan kölluðum við inn liðssveitir ljóssins og tókum niður eterískar mandölur.  Í þetta sinn var Lilju sagt að taka niður 36 odda stjörnu og kom það henni mjög á óvart enda hingað til unnið með 6 eða 12 odda stjörnur.  Eftir að hafa fengið staðfestingu á því að mandalan skyldi vera 36 odda virkjaði hún hana.  Hér var því greinilega þörf á mjög sterkri vörn fyrir okkur sem vorum í efnislíkama.  Vel gekk að hreinsa fjallið og fjöllin í kring nema hvað að gölturinn stækkaði og stækkaði og varð illvígari eftir því sem meiri ljósorka og kærleikur var sendur á hann.  Að lokum virtist þó hjarta hans byrja að þiðna en það var ekki fyrr en eftir að Lilja setti tíbeskan laser kristal sem hún hafði nýlega keypt á hjartastöð sína til að magna upp kærleiksorkuna og við sendum sameinaðan geisla, kærleika á veruna.  Þess má geta að við unnum alltaf  með MAHATMA orkuna allstaðar þar sem við hreinsuðum.  Vinkona okkar tók einnig fram tíbetskálarnar að nýju og Lilja kallaði til tíbeska munka til aðstoðar auk enn fleiri ljósvera.  Einnig var stór floti ljósskipa yfir höfðum okkar bæði okkur til verndar og styrktar og einnig til að senda ljós niður í fjallið og hreinsa það.  Að lokum umbreyttist gölturinn í mennska veru og gekk inn í ljósið eftir langa vist í dökkum vistarverum.  Við báðum um að fjörðurinn yrði allur hreinsaður af leifum þessarrar dökku orku sem haldið hafði firðinum föngnum um langan aldur. Álfarnir fögnðu því að fá aftur afnot af heimkynnum sínum og hátiðahöldum var slegið upp. Það sama mátti raunar segja um álfana í Bolafjalli daginn áður.

Um kvöldið fengum við þær skýringar að höfðupaurinn í Gelti hefði í eina tíð verið tíbestkur munkur sem misreiknað hafði afl marejúana andans.

Hann var afskaplega þakklátur fyrir hjálpina og kvaðst ætla að aðstoða þjóð sína í Tíbet nú þegar hann var laus úr ánauð hinnar dökku orku.

Ljósasýning á himnum

Daginn eftir áttum við frí og var stundin notuð til að gleðjast yfir áfangasigri.  Þess má geta að leið og við hreinsuðum til í Bolungarvík virkjuðum við einnig mjög stóra mandölu sem nær um mestalla vestfirði og tengdum hana við orkustöðin í Hofsjökli og til ýmissa annarra staða hér á landi sem annars staðar á jarðarkringlunni. Það skín því mikið ljós á íbúa vestfjarða nú og er von okkar að það muni hafa mikil og góð áhrif á mannlíf og atvinnulíf í framtíðinni.
Er við skruppum  í búð á Ísafirði þennan dag dönsuðu ljósför yfir höfðum okkar og út á firðinum með ljósagangi og flugsýningu sem sum okkar skynjuðu aðeins sem orku en aðrir sáu ljóslifandi.

Í þakklætis skyni fyrir alla hjálpina gáfu divar vestfjarða okkur orku sína í eina tegund orkudropa okkar sem við bjuggum til meðan við dvöldum þar.  Þeir hjálpa okkur að tengjast kærleiksorku divanna og orkuneti landsins okkar.

Á leið okkar heim til Mosfellsbæjar  stoppuðum við hjá Fjallfossi í Dynjanda og einnig þar fengum við að gjöf orku þeirra vera sem þar búa, í staðinn virkjuðum við mandölu umhverfis alla fossana og nágrenni þeirra svo að þeir hefðu líka beinan aðgang að ljós og kærleiksorku Drottins.

Í ferð þessarri skynjuðum við ákaflega sterkt orku landsins okkar, díva og náttúruanda og fannst við komast nær náttúrunni en nokkru sinni fyrr. Við erum ákaflega þakklát fyrir að fá að vinna þetta starf og tengja saman náttúru, mann og skaparann á svo stórbrotinn hátt.

Framundan hjá okkur er nýtt 8 daga námskeið hjá Gary í Bandaríkjunum í Desember og mörg námskeið á næsta ári bæði hér heima og erlendis. Um páskana eru ráðgerð annars vegar miðlunar námskeið og hinsvegar framhalds kristalla námskeið.  Hæst mun þó sennilega bera 9 daga námskeið sem ráðgert er hér á landi með Hari Dasi og Kathleen í október þar sem unnið verður með dívum, náttúröndum og frumkröftum landsins auk alheims vera. “The cosmic call home” 

Ótrúlegt ár er á enda og annað óskrifað framundan. Mest tilhlökkunar efni er þó að fá að deila vitneskju okkar með ykkur kæru samferðamenn svo einnig þið fáið að upplifa undur þessa stórkostlega alheims sem við erum meðskaparar að og opna upp vitund okkar til hærri kærleiks og ljóstíðni. Stórkostlegir tímar mikilla breytinga eru framundan og undir hverjum og einum komið hvernig þeir upplifa þá.

Lilja Petra Ásgeirsdóttir og Erlendur Magnús Magnússon, shamballa meistarar



Heim    Shamballa   Jarðarheilun    Mt Shasta    Hrifkjarnar   Námskeið Aðalsíða
Spegill ársins 1999
Free Web Hosting